KAPHA

Eðliseiginleikar kapha orkunnar ráðast af þeim frumefnum sem hana skapa, sem eru vatn og jörð. Kapha er svöl, þung, þétt, hæg, mjúk, rök, olíukennd og kyrrstæð. Kapha er það sem mótar líkamann: Sementið, límið og smurningin. Kapha týpan er ástrík, umhyggjusöm og stöðug í tilfinningum sínum. Kapha á auðvelt með að fyrirgefa og er seinþreytt til leiðinda.
Í líkamanum finnst kapha orkan í brjóstholi, hálsi, lungum, höfði, sogæðum, fituvef, blóðvökva, sinum og liðböndum. Heimasvæði kapha er efri hluti magans og lungun. Kapha orkan er líkust því sem vestræn læknavísindi kalla ónæmiskerfi.
Eðliseiginleikarnir svalt, þungt, þétt, hægt, mjúkt, rakt, olíukennt og kyrrstætt eru áberandi í kapha týpunum. Magn þessara eiginleika er þó mismunandi hjá kapha fólki. Þar af leiðandi eru ekki allar kapha týpur eins. Að auki er því lýst í ayurveda fræðunum hvernig umhverfið hefur einnig mótandi áhrif á líkama og huga umfram hið náttúrulega eðli sem við fæðumst með eða prakriti.