Ilmkjarnaolíur

Ilmkjarnaolíur - örugg notun
Á síðustu árum hafa vinsældir ilmkjarnaolía (IO) aukist mikið með bættum rannsóknum á virkni þeirra og auknum áhuga almennings á náttúrulegum meðferðum. Þær má orðið finna á ótrúlegustu stöðum s.s. í byggingavöruverslunum, jafnt sem apótekum og heilsubúðum.
Olíurnar eru notaðar á marga vegu, t.d. til að bæta ilm í híbýlum, útí vatnið í þvottavélinni, sem áburður á frunsur og bólur, fæla frá skordýr, sótthreinsa eldhúsborðið, til að auka slökun eða bæta einbeitingu.
Með þessari miklu aukningu í notkun á síðustu árum, þar sem allur almenningur hefur óheftan aðgang að olíum, hefur því miður ekki fylgt nauðsynleg fræðsla um virkni þeirra og mörg fyrirtæki og söluaðilar hvetja til óábyrgrar notkunar þeirra sem stundum hefur leitt til alvarlegra heilsukvilla.
Með auknum vinsældum olíanna, markaðssetningu og auknu aðgengi í verslunum, hefur síðan nýtt vandamál poppað upp: Sóun og meganotkun á olíum. Í lok greinar, fjalla ég örstutt um ábyrgð okkar gagnvart auðlindum náttúrunnar í ljósi vinsælda ilmkjarnaolía.
Upplýsingar um ábyrga notkun eru allar auðfundnar ef leitað er í smiðju Alþjóðasamtaka ilmkjarnaolíufræðinga, ilmkjarnaolíuskóla og víðar. Það sem helst er varað við í notkun ilmkjarnaolía:
 • Drekka þær eða borða - (olíurnar eru það öflugar að þær skaða smá saman slímhúð í meltingarvegi. Sem dæmi um styrk þeirra má benda á að ef ilmkjarnaolía er sett í bómull og látin liggja í gluggakistu eyðist málningin yfir nóttina. Eins ef t.d. sítrónuolía smitast á plasthúðað ílát, skemmist plasthúðin.
 • Bera þær á húðina óþynntar
 • Hafa dreifara í gangi tímunum saman í lokuðu rými
 • Nota sömu olíurnar lengi (líkaminn getur þróað ofnæmi eða viðkvæmni fyrir þeim)
 • Notkun á olíunum á gæludýr. Dýrin eru viðkvæmari en mannfólkið. Þola illa bæði ilminn í ilmdreifurum og alls ekki á að bera á húð eða feld.
 • Olíurnar hafa áhrif á ýmis lyf og geta skert virkni lyfja eða aukið virkni þeirra
Sagan á handahlaupum
Hinn merki læknir fornaldar, Hippokrates, sagði leiðina til heilsu felast í ilmböðum og ilmolíunuddi. (4) Notkun ilma og olía var þekkt aðferð til lækninga og heilsubótar hjá Egyptum, Indverjum, Kínverjum og fleiri þjóðum til forna. Lengst af voru ilmkjarnaolíur þó lítt þekktar meðal almennings. Þekking og notkun á jurtum og ilmkjarnaolíum til lækninga og heilsubótar var kæfð af kaþólsku kirkjunni á miðöldum þar sem slík meðöl voru tengd villu- og galdratrú. (17) Dýrmæt þekking hefur þannig glatast. En smá saman hefur þekkingin á olíunum fundið leið til baka, með auknu frelsi andans og fleiri og betri rannsóknum á virkni þeirra. Í enskum, þýskum og frönskum lyfjaskrám frá 19. öld er t.d. að finna lýsingar á mörgum ilmkjarnaolíum og hvernig á að brúka þær.
Í upphafi 20. aldar tók franskur læknir, Rene-Maurice Gattefosse, eftir því fyrir tilvilun, hvernig lavender olía græddi drep sem hljóp í hendur hans eftir alvarlegan bruna. Hann hóf í kjölfarið að rannsaka heilunarmátt og áhrif olíanna. Í heimsstyrjöldinni fyrri notaði hann þær síðan til að græða áverka hermanna. Kollegi hans frá Frakklandi, Jean Valnet, notaði þær sem bakteríudrepandi staðgengil sýklalyfja sem voru af skornum skammti, í Asíuófriðnum mikla eftir seinna stríð. Valnet gaf síðar út ítarlegt leiðbeiningarit um notkun ilmkjarnaolía, The Practice of Aromatherapy. Á níunda áratugnum hófu tveir frakkar, Daniel Pénoël læknir og Pierre Franchomme lífefnafræðingur, ítarlegar rannsóknir á virkni 270 ilmkjarnaolía og gáfu út ritið L’aromatherapie Exactement árið 1990 sem margir ilmkjarnaolíufræðingar styðjast nú við. (5) Frakkar höfðu þannig mikil áhrif á fræðin á 20. öld en síðan þá eru læknar, lyfjafræðingar og efnafræðingar af ýmsum þjóðernum sem hafa sökkt sér í fræðin og gert áhugaverðar rannsóknir á virkni þeirra.
Í öllum ilmkjarnaolíuskólum eru þrjár tegundir notkunar kenndar: innöndun, bera á húð og inntaka. Misskilningur hefur þróast í þá átt að telja að frönsk stefna telji inntöku vera langbesta og að aðrar þjóðir svo sem Englendingar og Þjóðverjar noti aðrar aðferðir. Hér má lesa ágætis samantekt um það hvernig sú hugmynd fór af stað og leiðrétting á þessum misskilningi. Þó má segja að í Frakklandi sé inntaka olíanna algengari en víða annarstaðar, en franskir ilmolíufræðingar, eins og aðrir, vilja þó alltaf að inntaka (í belgjum) sé gerð undir leiðsögn ilmkjarnolíu fræðings með læknisfræði bakgrunn. En það eru til þrjár stéttir kjarnolíufræðinga og ekki allir hafa þekkingu til að gefa olíurnar til inntöku í belgjum. Ef þær eru gefnar til inntöku er það alltaf í belgjum. Ekki sett út í vatn eins og ég sé oft hér á landi.
 
 Taka þær inn? Bera á húð? Eða er nóg að anda þeim að okkur?
Alþjóðasamtök imkjarnaolíufræðinga og meðferðarþerapistar í ilmolíukjarnameðferðum ráða fólki frá því að taka ilmkjarnaolíur inn. Hvort heldur sem er blandaðar í vatni og matvælum eða í belgjum. (1)(2)(3) Í undantekningatilfellum þykir áhrifaríkara, að taka olíurnar inn frekar en bera þær á sig eða anda þeim að sér. Í þessum einstöku tilfellum, eru það sérfræðingar (ekki almennir ilmkjarnaolíufræðingar heldur eru þeir með læknisfræðilegan eða lyfjafræðibakgrunn) sem blanda þær í réttum hlutföllum við burðarolíu og útbúa í belgjum. Belgirnir eru síðan gleyptir. Eins og lesa má um hér í umfjöllun Healthline um ilmkjarnaolíur á belgjum sem notaðar eru við iðraólgu. Þó munni, vélinda og maga sé hlíft með því að taka olíurnar inn í belgjum, eru þær jafnt sem áður álag á lifur og nýru sem þurfa að hreinsa þær út.
Ilmkjarnaolían sem við kaupum á flöskum er 50-100 sinnum öflugri en sú olía sem við myndum fá úr plöntunni sjálfri ef við myndum hreinlega borða hana eins og hún kemur fyrir (14) og því ber að nota örlítið í senn, 2-3 dropar í ilmdreifarann er feykinóg. Þó mælt sé gegn því að nota olíurnar óþynntar þola flestir fullorðnir að fá einn dropa, endrum og sinnum af ilmkjarnaolíu í lófann til að anda að sér, en olíurnar eru þó missterkar og sumir eru með sérlega viðkvæma húð. (negull, kanill og wintegreen eru meðal þeirra olía sem eru sérlega ertandi). En að setja einn dropa í lófann daglega og dögum, vikum eða mánuðum saman gæti samt á endanum leitt til ertingar. Önnur hætta fólgin í notkun á óþynntum olíum er að smá saman getur líkaminn myndað óþol til lífstíðar fyrir tiltekinni olíu. Þá þolir viðkomandi ekki nokkra vöru sem hefur þessa tilteknu IO sem innihaldsefni. Í þessu sem öðru þarf að sýna skynsemi. Ef þroti hleypur í húð eftir að olía er borin á hana á strax að hætta notkun.
Aldrei er mælt með því að olíurnar séu settar út í drykk svo sem vatn eða djúsa. Það er vegna þess að olía og vatn blandast ekki og olíurnar leggjast því óþynntar að viðkvæmri slímhúð, munns, koks, vélinda og maga og valda ertingu.
 
Farið varlega!
Inntaka olíanna hefur valdið brjóstsviða, ógleði, magaverkjum, særindum í hálsi svo fátt eitt sé nefnt. Lesa má um mismunandi aukaverkanir vegna óábyrgrar notkunar olíanna í þessari skrá sem Aromatherapy United hefur tekið saman. Þar má sjá mörg slæm tilfelli þar sem olía var tekin inn. Hér er önnur skrá yfir aukaverkanir á vef Tisserand Institute. Þar má sjá að flest tilfellin eru vegna þess að olía var borin óþynnt á húð. Enda, ímyndið ykkur að taka inn eða bera óblandað á húð, olíur sem eyða málningu í gluggakistu yfir nótt eða plasthúð á ísskáp. Þó jurtir og olíur þeirra séu náttúrulegar geta þær haft mikil áhrif og þarf ekki að leita lengra en að tröllahvönninni íslensku, sem brennir húð við viðkomu.
Það er eins með þetta eins og reykingar og fleira sem er skaðlegt heilsunni: skaðinn sýnir sig ekki alltaf strax, heldur safnast upp á mörgum árum þar til eitthvað gefur sig. Sumir þola reykingar betur en aðrir, - en það þýðir ekki að reykingar séu skaðlausar heilsunni.
Við erum mis-viðkvæm og þolum áhrif ýmissa efna í umhverfinu misvel. Sumir þola mjólkurvörur og hveiti vel, en aðrir ekki. Að því sögðu, - er ljóst að sumir þola inntöku ilmkjarnaolía betur en aðrir og geta tekið þær inn í nokkur skipti án þess að skaði hljótist af. En margir þola þær ekki einu sinni í örskömmtum og ákveðnir hópar eiga að sleppa því alfarið að taka þær inn, eins og börn, aldraðir, ófrískar konur og konur með barn á brjósti.
Einnig ættu þeir sem eru á ýmsum lyfjum eins og blóðþynnandi lyfjum eða með viðkvæma lifur að forðast inntöku á olíunum.
Eiturefnafræðingurinn Rose Ann Gould Soloway, segir: ,, Margir telja að ilmkjarnaolíur séu skaðlausar þar sem þær eru náttúruleg efni og hafa verið notaðar lengi. Það er einfaldlega ekki rétt. Margar ilmkjarnaolíur mynda útbrot ef þær eru bornar á húð. Margar geta virkað eins og eitur ef þær berast inn um húð eða eru teknar inn. Fáar þeirra hafa verið rannsakaðar eins og gert er við lyf.” (9)
Nú vil ég ekki draga úr gleði fólks yfir ilmkjarnaolíum, enda er ég mikill aðdáandi þeirra sjálf og sem ég skrifa þessar línur anda ég að mér dásamlegum ilminum af furu og sítrónu sem berst mér frá hálsmeninu mínu fína sem ég fjárfesti í nýlega. :-) Heldur tel ég olíurnar og jákvæð áhrif þeirra, alltof dýrmætar til að orðsporið sé skemmt með rangri notkun og glannalegri markaðssetningu sumra söluaðila. Þess vegna er mikilvægt að kynna sér ráð sérfræðinga og fylgja þeirra þumalputtareglu að taka olíu aldrei inn og ekki bera óþynnta á húð.
Helst skal anda henni að sér t.d. úr ilmolíustifti eða kaupa hálsmen eða armband sem hægt er að setja olíurnar í, eða setja ilmolíudreifara af stað í skamma stund í senn á heimilinu. Gott er að miða við að hafa ilmdreifarann ekki lengur í gangi en 30-60 mínútur í senn. (14) Góð aðferð er líka að bera olíurnar á húð eftir að búið er að blanda þær í burðarolíu. Með því að nudda þynntum olíum á húð eykst blóðflæði til húðarinnar og hún hitnar sem veldur því að olíurnar ganga betur inn í blóðrásina. Einnig má nota olíurnar í þvottavélina til að gefa góðan ilm af þvottinum og koma í veg fyrir myglusvepp eða setja í tuskuna eða skúringarvatnið.
 
Sumir eru viðkvæmari en aðrir og magnið og tíðnin skiptir máli
Sumir eru ofnæmisgjarnir og með viðkvæma húð og geta myndað ofnæmi eða viðkvæmni fyrir lífstíð fyrir olíu sem borin er óþynnt beint á húð. (7)
Tilfellin eru mörg, þar sem skaði eða óþægindi hafa hlotist af óábyrgri notkun ilmkjarnaolía.(6) Í flestum tilfellum hafa þær verið teknar inn með vatni eða öðrum vökva eða í belgjum og í öðrum tilfellum verið bornar óþynntar á húð. Eitt af því sem ber að varast er notkun sama ilmsins í langan tíma. Slík notkun býður uppá að líkaminn þrói með sér ofnæmi eða viðkvæmni fyrir ilminum og virku efnum olíunnar. (8)
Það er því grunn reglan í þessum fræðum, - ef þú vilt taka olíurnar inn, láttu þá sérfræðing í ilmkjarnaolíumeðferð sjá um þetta fyrir þig. Eða einfaldlega slepptu því og fáðu í staðinn góðu áhrifin með því anda að þér olíunum, eða berðu þær á húðina. Þá þarftu samt fyrst að blanda þeim í burðarolíu eins og kókosolíu, jojobaolíu eða möndluolíu og bera þær þannig á þig.
Olíurnar eru missterkar og þurfa því mismikla þynningu. Hægt er að fara eftir þessu skema hér, þegar olíur eru þynntar. Þar er þynningarhlutfall gefið upp í fjölda dropa í teskeið. 1% er mesta þynningin í þessu skema, en í sumum tilfellum þarf að þynna enn meira og setja aðeins 1 dropa í matskeið í stað teskeiðar, eins og þegar um ungabörn er að ræða. Einnig eru sumar olíur það ertandi að þær þarf að þynna meira eins og negulolía (clove oil) sem þarf að þynna í 0.5% sem gerir 1 dropi í tvær teskeiðar af burðarolíu.
Á þessari síðu hjá Tisserand Institute má sjá hversu mikið þarf að þynna olíurnar negul og holy basil sem þarf að þynna mun meira en flestar olíur. Sítrusolíur geta valdið bruna í húð í sólskini eins og sítróna og greip. Þær þarf því að þynna vel og bera hana frekar á húðina þar sem sól skín ekki á.
 
Best er að anda þeim að sér eða bera þær þynntar á húðina
Best er að anda ilmi olíanna að sér og fá áhrifin þannig, enda hverfandi líkur á aukaverkunum ef olíurnar eru notaðar á þann hátt, en jafnt sem áður geta áhrifin verið alveg mögnuð, eins og sést á þessari nýlegu yfirlitsrannsókn, sem sýnir fjöldann allan af rannsóknum og flestar þeirra gerðar með innöndun olíanna. Í greininni er það dálkurinn Route of Administration og innöndun er Olfactory. Með innöndun virka olíurnar á randkerfi heilans sem er miðstöð minninga og tilfinninga og skýrir þannig hvers vegna mismunandi olíur hafa mismunandi áhrif á andlega líðan. Rannsóknir benda til þess að ilmkjarnaolíur geti haft jákvæð áhrif á blóðþrýsting, hjartsláttartruflanir, heilabylgjur, dregið úr þunglyndi, kvíða og elliglöpum, minnkað magn streituhormóna í líkamanum, svo eitthvað sé nefnt. (10)
Það er einnig áhrifaríkt að bera olíurnar þynntar í burðarolíu s.s. jojoba olíu, möndluolíu eða kókosolíu, beint á húðina. Samkvæmt rannsóknum, fara olíurnar í gegnum húð og inní blóðrás og ná hámarks styrk í blóði á 20 mínútum. Styrkurinn fellur aftur niður í 0 eftir um 90 mínútur. (11)
 
Blessuð dýrin þola olíurnar verr 
Ilmkjarnaolíur eru öflugar og þarf mannfólkið að gæta varúðar við notkun þeirra, en enn varlegar þarf að fara með þessar olíur í nærveru gæludýranna okkar. Það nægir að ilmkjarnaolíu sé dreift í ilmdreifara (diffuser) til að hún geti haft skaðleg áhrif á dýrin. Sumar olíur virka eins og eitur á líkama dýranna þar sem þau hafa mun minni getu en við til að hreinsa efnin - ilm sameindirnar - aftur úr blóðinu. Kettir eru viðkvæmari en hundar fyrir olíunum þar sem þá skortir alfarið viss ensím sem lifrin notar til útskilnaðar á efnunum. Fuglar eru með mjög viðkvæm öndunarfæri og ekki ætti að nota ilmolíudreifara þar sem fuglar eru á heimili.
Ef olíum er dreift í ilmdreifara þarf að gæta þess að dýrið hafi flóttaleið og komist út úr herberginu og í ilmlaust herbergi eða alla leið út. Einnig verður að gæta þess að hafa ekki kveikt á ilmdreifaranum nema skamma stund s.s. í 15 mínútur. Athugið að dýrin hafa mun næmara þefskyn en við og þola mun minna af lykt. Ef dýrið á sér sögu af öndunarfæra sjúkdómum á að sleppa öllum ilmkjarnaolíum.
Sumar olíur eru þó mun erfiðari fyrir dýrin en aðrar og á að forðast alfarið að nota þær þar sem gæludýr eru. (12) (13)
 
Fyrir ketti eru eftirfarandi olíur sérlega slæmar:
 • Wintergreen
 • Sweet birch
 • Citrus (d-limonene)
 • Pine
 • Ylang ylang
 • Peppermint
 • Cinnamon
 • Pennyroyal
 • Clove
 • Eucalyptus
 • Tea tree (melaleuca)
 • Thyme
 • Oregano
 • Lavender
Fyrir hunda eru eftirfarandi olíur sérlega slæmar:
 • Cinnamon
 • Citrus (d-limonene)
 • Pennyroyal
 • Peppermint
 • Pine
 • Sweet birch
 • Tea tree (melaleuca)
 • Wintergreen
 • Ylang ylang
 • Anise
 • Clove
 • Thyme
 • Juniper
 • Yarrow
 • Garlic
Eitrunaráhrif af völdum ilmkjarnaolía geta lýst sér á eftirfarandi hátt hjá dýrunum:
 • Ilmur af ákveðinni ilmkjarnaolíu finnst af feldinum, út úr dýrinu eða af ælunni frá því
 • Erfitt með andardrátt
 • Slefar
 • Þreyta
 • Máttleysi
 • Erfitt með gang
 • Skjálfti í vöðvum
 • Nuddar eða strýkur kjaftinn með loppunni
 • Roði eða bruni á vörum, tungu, húð eða gómi
 • Uppköst
Hvað skal gera ef dýr hefur orðið fyrir eitrun af völdum ilmkjarnaolía?
 • Hafa strax samband við dýralækni
 • Ef olían er á feldi eða húð dýrsins, þarf að þvo hana strax af
 • Ekki gefa dýrinu þínu ilmkjarnaolíu meðferð nema að höfðu samráði við dýralækni
 • Taktu olíuflöskuna með þér til dýralæknisins svo þeir sjái við hvað er að eiga
 
Hér má sjá fleiri gagnlegar upplýsingar um olíurnar og notkun þeirra í grein eftir ilmolíufræðinginn Sigrúnu Sól.
Sóun á dýrmætum olíum og ágangur á auðlindir náttúrunnar
Spennan yfir nýjum olíum og markaðssetning hvetur fólk til að kaupa allt of mikið af olíum sem margar hverjar standa síðan ónotaðar á hillu hjá kaupanda. Olíur endast ekki að eilífu. Þær oxast á nokkrum árum og skemmast þannig. Þær hafa mislangan líftíma, - myrran og patchouli um 10 ár sem er það lengsta og stysti líftíminn er aðeins 2 ár. Því skiptir máli að kaupa ekki of mikið í senn. Hvernig olían er geymd og notuð getur stytt líftímann. Olíurnar á helst að geyma á svölum og dimmum stað. Ilmkjarnaolíusérfræðingar geyma sínar olíur í ísskáp. Einnig þarf að forða þeim frá sólarljósi og setja tappann strax á aftur eftir notkun. Sjá nánar um líftíma mismunandi olía hjá Aromaweb.
Olíurnar ganga á auðlindir náttúrunnar. Til að framleiða einn DROPA af rósa olíu (Rose Otto) þarf 30 - 50 rósir.(15) Til að framleiða hálft kíló af lavender olíu þarf um 115 kg af lavender blómi. (16) Á tímum aukinnar vitundar í umhverfismálum hljótum við því að vilja hægja á neyslunni og hugsa áður en við kaupum olíurnar. Hvað ætlum við okkur að gera við nýju olíuna? Við þurfum að afla okkur áreiðanlegra upplýsinga um virkni og notkunarmöguleika olíunnar og taka þannig ákvörðun um frekari kaup á olíum. Kannski við ættum að byrja á því að kynna okkur gaumgæfilega þær olíur sem við eigum nú þegar?
Ég sjálf hef fallið í þá gryfju að missa mig yfir úrvalinu og gleðinni sem felst í nýjum ilmi. En, ég er að taka mig á og vonandi hreyfir þessi pistill minn við fleirum, bæði til að ástunda ábyrgari notkun olíanna sem við nú þegar höfum fjárfest í og í ábyrgari umgengni við auðlindir náttúrunnar.
Í þágu samkeppninnar og markaðsmála hefur það gerst að fyrirtæki fara ólöglegar leiðir til að geta annað eftirspurn sinna kaupenda eftir verðmætum olíum og þannig stofnað tegundum í hættu eins og gerðist með rósaviðarolíu og garðabrúðuolíu sem fyrirtækið Young Living, keypti ólöglega frá Perú. Þá skiptir máli að neytendur séu vakandi og skipti eingöngu við ábyrg fyrirtæki. Á endanum er það neytandinn sem hefur síðasta orðið. Í þessari hugleiðingu ilmkjarnaolíufræðingsins Natalie Miller, eru góðir punktar til að hafa í huga þegar við ákveðum að fjárfesta í nýrri olíu.
Góða ilmolíustundir!
Heiða Björk 
 
Heimildir
1.  International Federation of Professional Aromatherapists. 11. maí 2019. (2. útgáfa.) ,,Statement on Internal Neat Use of Essential Oils.” https://ifparoma.org/wp-content/uploads/2019/07/Statement-on-Internal-Neat-Use-of-Essential-Oils.pdf
2. Amy Kreydin. ,,Aromatic Medicine: Internal Dosing of Essential Oils”. The Barefoot Dragonfly. http://www.thebarefootdragonfly.com/aromatic-medicine-internal-dosing-of-essential-oils/
3. Halcon, Linda. ,,How Do Essential Oils Work.” University of Minnesota. https://www.takingcharge.csh.umn.edu/how-do-essential-oils-work
4. Robins, J.L. 17. mars 1999. ,,The Science and Art of Aromatherapy.” Journal of Holistic Nursing. https://journals.sagepub.com/doi/10.1177/089801019901700102?url_ver=Z39.88-2003&rfr_id=ori:rid:crossref.org&rfr_dat=cr_pub%20%200pubmed
5. Essential Oils Academy. (e.d.) ,,History of Essential Oils.” http://essentialoilsacademy.com/history/
6. Aromatherapy United. 2014-2018. ,,Injury Reports.” http://aromatherapyunited.org/injury-reports/
7. Tisserand Institute. 2015-2020. ,,Irritation and Alergic Reaction.” https://tisserandinstitute.org/safety/irritation-allergic-reactions/
8. Tisserand Institute. 2025-220. ,,Adverse Reactin Database. https://tisserandinstitute.org/safety/adverse-reaction-database/
9. Rose Ann Gould Soloway. ,,Essential Oils: Poisonous when Misused” Poison Control. National Capital Poison Center. https://www.poison.org/articles/2014-jun/essential-oils
10.  Lizarraga-Valderrama, Lorena R. 29. ágúst 2020. ,,Effects of essential oils on central nervous system: Focus on mental health.” Phytotherapy Research. (Wiley Online Library) Effects of essential oils on central nervous system: Focus on mental health
11. Complementary Health Professionals. ,, Dermal Absorption of Essential Oils.” https://www.complementaryhealthprofessionals.co.uk/single-post/2018/06/01/Dermal-Absorption-of-Essential-Oils
12. Michelson Found Animals. ,,Essential Oils and Animals: Which Essential Oils Are Toxic to Pets?” https://www.foundanimals.org/essential-oils-toxic-pets/ 
13. American Society for the Prevention of Cruelty to Animals. 17. janúar 2018. ,,Is the Latest Home Trend Harmful to Your Pets? What You Need to Know!” https://www.aspca.org/news/latest-home-trend-harmful-your-pets-what-you-need-know
14. Tisserand Institute. ,,Safety Guidelines.” https://tisserandinstitute.org/safety/safety-guidelines/
15. Plant Therapy. 7. maí 2020. ,,WHY CAN’T I APPLY ESSENTIAL OILS UNDILUTED (AKA NEAT)?” https://blog.planttherapy.com/blog/2020/05/07/why-cant-i-apply-essential-oils-undiluted/
16. Yeager, Nikki. ,,1 Pound of Essential Oil = 250 Pounds of Lavender.” EcoWatch. https://www.ecowatch.com/environmental-impact-essential-oils-2465879288.html#toggle-gdpr
17. El Hakim, Heba. ,,A Brief History of Essential Oils. Part Three. ” Heba El Hakim. https://hebaelhakim.com/a-brief-history-of-essential-oils-pt-3/