Hvers vegna Ayurveda heilsu- og lífsvísindin?

Hefðbundnar og óhefðbundnar lækningar þurfa að vinna saman, - almenningi til heilla

Í um 30 ár hef ég leitað í verkfærakistu náttúrulækninga til að bæta eigin heilsu sem og annarra í fjölskyldunni, og oftast með góðum árangri.   Í sumum tilfellum höfðu hin Vestrænu læknavísindi ekki fundið lausn á vandanum eins og var raunin þegar sonurinn greindist níu ára gamall með Tourette´s taugasjúkdóm. Þá var okkur tilkynnt að sjúkdómurinn væri ólæknandi en hægt væri að bæta lífsgæði með lyfjagjöf. Í stað þess að leita á náðir lyfjanna og allra þeirra aukaverkana sem það hefði líklega haft í för með sér, prófuðum við náttúrulækningar. Það er skemmst frá því að segja að á rúmum mánuði voru allir taugakippirnir og kramparnir sem höfðu  valdið drengnum verkjum og félagslegum vandamálum horfnir. Verkfærakista náttúrulækninga var það sem bjargaði honum frá erfiðri framtíð með tourette´s. Fjórum árum síðar, þegar annars konar óútskýrð veikindi bönkuðu upp á og hefðbundnir læknar stóðu ráðþrota gagnvart hitavellu og verkjum í kvið og útlimum, var það indverskur læknir í Kanada, menntaður í fornum læknisvísindum Indlands, sem meðhöndlaði hann og veikindin létu í minni pokann á tveimur mánuðum. Drengurinn, þá þrettán ára gat aftur farið að stunda skólann og hefur varla orðið misdægurt síðan og nú eru liðin 13 ár.  

Ég sjálf hef fengið minn skerf að veikindum að glíma við  og hafa Vestræn læknavísindi og glöggir læknar, oftar en einu sinni bjargað mér með þróaðri tækni í skurðlækningum og öflugum lyfjum þegar ekkert annað dugði. Þannig var raunin þegar ég greindist með góðkynja æxli í höfði sem fjarlægt var með flókinni skurðaðgerð í Svíþjóð undir handleiðslu íslenskra lækna. Æxlið var fjarlægt en um leið missti ég heyrn á öðru eyra.  Einnig reyndust Vestræn læknavísindi mér vel þegar ég greindist með sjaldgæfan ólæknandi sjúkdóm, lugnaslagæðar háþrýsting sem smá saman skemmir æðar lungnanna og gerir að verkum að hjartað hlýtur skaða af vegna  aukins erfiðis við að dæla blóði til lungna. Þegar sjúkdómurinn greindist hafði hann mallað í mér árum saman, ógreindur og of seint var að grípa til náttúrulækninga með meðhöndlun, enda hjartað nálægt því að gefast upp. En þannig er, að rétt eins og Vestræn lækningavísindi hafa ekki svar við öllu, er það sama uppi  á teningnum með náttúrulækningar. Ef sjúkdómurinn hefur náð að grassera lengi og hefur náð að grafa um sig  djúpt í vefjunum getur verið illmögulegt að uppræta hann. Þó má ekki gleyma því að kraftaverk hafa gerst í slíkum aðstæðum og fólk náð bata. 

Ég er svo lánsöm að Vestræn læknavísindi þróuðu lyf sem gera það að verkum að ég get lifað eðlilegu lífi og fyrir það er ég óendanlega þakklát. Fram að því voru meðal lífslíkur sjúklinga með lungnaslagæðar háþrýsting um 3 ár eftir greiningu. Nú eru 10 ár frá minni greiningu og ég er enn í góðu formi og með betra úthald en fyrir lyfjameðferð. 

Ég þakka þó ekki eingöngu lyfjagjöf góða líðan mína, heldur einnig verkfærakistu náttúrulækninganna sem ég nota samhliða. Sem dæmi má nefna að með aðferðum náttúrulækninga styrki ég lifur og nýru svo þessi hreinsilíffæri líkamans ráði frekar við hin öflugu lyf. Ég nota öndunaræfingar úr verkfærakistu jóga  og ayurveda til að styrkja lungu og auka lungnarýmd. Ég nota þekkingu ayurveda fræðanna til að til að styrkja vefi líkamans og minnka álag vegna aukaverkana sem lyfin valda eða sem lyfin ráða ekki við s.s. meltingartruflanir, blæðingar vegna útvíkkunar æða og bjúgs. Þegar heilsunni hrakaði um tíma þrátt fyrir lyfin, hjálpaði tveggja vikna panchakarma meðferðin ayurvedíska mér á flot aftur. 

Náttúrulækningar hafa þó oft gagnast mér og fjölskyldunni betur en hefðbundin Vestræn læknavísindi svo sem í glímu við eyrnabólgur, exem, hægðatregðu, brjóstsviða, niðurgang, loftgang, kinnholubólgur, háan blóðþrýsting, svefnleysi, auma liði og breytingaskeiðs hitakóf. Ég er eindreginn fylgismaður samvinnu milli Vestrænna hefðbundinna lækninga og náttúrulækninga og sé fyrir mér framtíð þar sem hin Vestrænu læknavísindi vinna samhliða öðrum kerfum eins og t.d. ayurveda kerfinu indverska sem er hluti af hinu opinbera heilbrigðiskerfi á Indlandi og fleiri löndum. Þess konar samvinna gagnast þeim sem berjast við heilsuvandamál best.  Svissneskir, þýskir og austurískir krabbameinssjúklingar fara margir, á milli lyfjameðferða, í panchakarma meðferð á Indlandi, Sri Lanka eða öðrum stöðum, og sjúkratryggingar þeirra borga. Panchakarma, sem er ayurvedísk læknismeðferð, hefur þannig gagnast þúsundum krabbameinssjúklinga við að styrkja líkamann og bæta getu hans til sjálfsheilunar, sem eykur líkur á góðri virkni geisla- og lyfjameðferðar. Ég veit að þessi þróun er hafin á Íslandi og vona að stjórnvöld auki slíka samvinnu, sjúklingum og almenningi í landinu til heilla.

Ayurveda (ayur = líf, veda = vísindi/þekking) er elsta þekkta heilbrigðiskerfi mannkyns. Ayurveda hefur að geyma hafsjó af leiðum til forvarna sem og kerfi til lækninga þegar líkaminn eða hugurinn er orðinn veikur. Að auki við Indland, er Ayurveda viðurkennt heilbrigðiskerfi í 16 ríkjum s.s. Malasíu, Sviss, Kúpu, Brasilíu, Nepal og Sri Lanka. Að auki hafa fimm Evrópulönd viðurkennt ayurveda kerfið með regluverki: Rúmenia, Ungverjaland, Lettland, Serbia og Slóvenia.

Vinsældir Ayurveda fræðanna hafa aukist  síðustu ár og í flestum löndum er boðið upp á ayurveda ráðgjöf, ayurveda meðferðir og jafnvel panchakarma, - læknis meðferðina sérhæfðu sem nota þarf þegar líkamsstarfsemin er komin í mikið ójafnvægi.

Þekking almennings á ayurveda vísindunum er almennt lítil og kemur það til af því að lengi vel var ómögulegt að fá upplýsingar nema á sanskrit, hindi eða einhverju öðru tungumáli sem talað er á menningarsvæði Indlandsskagans. Það var ekki fyrr en fyrir um 30 árum sem þýðingar á hinum fornu Veda ritum tóku að berast til Vesturlandabúa og farið var að semja bækur aðgengilegar fyrir almenning á Vesturlöndum. Ayurveda er kerfi sem lítur á manneskjuna sem eina heild, þar sem unnið er jafnt með líkama, huga og anda og notar næringu, jurtir, öndun, hugleiðslu og fleira til að heila alla þessa þrjá þætti.

En eins og í öðrum náttúrulækningum, er heilunin að stórum hluta undir okkur sjálfum komið. Ekki er nóg að taka inn töflu og bíða eftir árangri. Vilji og staðfesta þarf að koma frá manneskjunni sjálfri til að fylgja ráðleggingum, enda segir í hinum fornu vísindum ayurveda: Glæpur gegn gáfum veldur veikindum. Við vitum að eitthvað er óhollt og getur veiklað okkur, en kjósum samt að gera það, þrátt fyrir að vita betur. Við brjótum þannig gegn okkar góðu gáfum.  Því er fyrsta skrefið í heilun, að nota gáfurnar og vinna ekki gegn eigin heilsu með óhollri næringu og lífsstíl, ef við vitum betur.