Hvaða máli skiptir þarmaflóran?

Þarmaflóran okkar samanstendur af þúsundum mismunandi örvera, s.s. bakteríum, sumum vinveittum en öðrum fjandsamlegum. Einnig er þar að finna margar tegundir af sveppum og vírusum. Þessi blanda af örsmáum lífverum í þörmum okkar er kölluð þarmaflóra og hafa rannsóknir síðustu ára leitt í ljós gríðarlegt mikilvægi hennar í líkamsstarfseminni og tengsl við margvíslega sjúkdóma s.s. liðagigt og þunglyndi.

Samanlögð þyngd þessara örvera í þörmum okkar er rúmt kíló sem er svipað og þyngd heilans. Enda eru þarmarnir með sína taugaenda og  taugaboðefni eins og serotonin og dopamin sem þeir framleiða, stundum kallaðir ,,the second brain" og þarmaflóran síðan ,,the third brain".(11)

Þessar örverur hafa margvísleg hlutverk og eru sumar bakteríurnar mikið rannsakaðar og hlutverk þeirra vel þekkt í meltingu og ónæmiskerfi s.s. Lactobacillus Acidophilus, Lactobacillus Plantarum og Bifidobakterium Bifidus.

Bakteríurnar framleiða ensími sem taka þátt í mismunandi efnahvörfum s.s við framleiðslu vítamína eins og K vítamíns og B12 og framleiðslu meltingarensíma s.s. laktase sem  hjálpar til við að melta mjólkurvörur. (10) Sumar bakteríur eru góðar fyrir asthma og aðrar geta lækkað kólesteról og enn aðrar eru mikilvægar fyrir ónæmiskerfið og síðan má ekki gleyma mikilvægi þeirra við að vernda slímhúð þarmanna. En þessar bakteríur og aðrar örverur lifa ekki eingöngu í þörmum okkar eins og  nafnið þarmaflóra gefur til kynna. Örveruflóran er um allan líkama okkar og má segja að þarmaflóran sé í öllum meltingarveginum frá munni og maga til þarma og endaþarms. 

Í nýrri rannsókn sem birtist í tímaritinu American Society for Microbiology (1), er sýnt fram á tengsl þarmaflóru og  geðsjúkdóma.  Rannsóknin leiddi einnig í ljós að því fjölbreyttara úrval grænmetis sem neytt er, því fjölbreyttara úrval baktería og annarra örvera finnst í þörmunum.  Í rannsókninni voru hægðasýni tekin úr 125 manns, sem öll höfðu einn eða fleiri eftirfarandi geðsjúkdóma: áfallastreituröskun (PTSD), þunglyndi, geðhvarfasýki eða geðklofa.  Valinn var samanburðarhópur heilbrigðra einstaklinga og þess gætt að hafa samræmi í aldri, kyni og  þyngdarstuðli. Niðurstöður könnunarinnar sýndu að þarmaflóra þeirra sem voru með geðsjúkdóm líktist þarmaflóru annarra sem voru með svipaðan geðsjúkdóm, mun frekar en þarmaflóru heilbrigða samanburðarhópsins.

Í Meta-Analysis (niðurstöður margra rannsókna skoðaðar og bornar saman) sem birtist í desember 2017 í tímaritinu Nature Communications (2) er sýnt fram á  tengsl óeðlilegrar þarmaflóru við margvíslega sjúkdóma.  Í sumum tilfellum voru tengslin skortur á  vinveittum bakteríum og í öðrum tilfellum voru tengslin mikill fjöldi vissra fjandsamlegra baktería.  Megin ályktunin er sú að í flestum sjúkdómum má sjá að þarmaflóran er í ójafnvægi og að vinveittar bakteríur geta komið jafnvægi aftur á þarmaflóruna og unnið gegn sjúkdómum.

bacteria.jpg

Hlutverk bakteríanna er mismunandi og má t.d. nefna að bakteríurnar Bifidobacterium lactis og Lactobacillus Acidophilus sem gefa frá sér butyrate sýru geta unnið gegn ristilkrabba.(3) Annars er butyrate sýra í hreinu smjöri og hreint smjör því gott fæði þar sem butyrate sýran hefur verndandi áhrif á ristilinn.

Sýnt hefur verið fram á að hjá fólki með liðagigt er sérlega mikið af bakteríunni Prevotella copri og sérlega lítið af vinveittu bakteríufjölskyldunni Bifidobacterium.

Fjöldinn allur af rannsóknum hefur sýnt tengsl á milli exems í húð og óeðlilegrar þarmaflóru. Í einni rannsókninni kom t.d. í ljós að hjá börnum og ungu fólki með exem (atopic disease) var óvenjulega lítið af vissri bakteríu í þörmunum, bifidobacteriu. (7) 

 

Það sem bætir þarmaflóruna

Í gegnum aldirnar hafa samfélög um allan heim gerjað matvæli s.s. yogurt, kefir, kimchi, natto og miso og þannig hefur fólk fengið mikilvægar vinveittar bakteríur inn í sitt reglubundna fæði. Íslenski súrmaturinn hefur þannig nýst Íslendingum í aldanna rás til bættrar meltingarstarfsemi. Trefjaríkur matur s.s. hnetur, fræ, bygg, hafrar, hýðishrísgrjón, grænt kál, baunir og annað grænmeti styður einnig vinveittu bakteríurnar og er nauðsynlegt að borða fjölbreytt grænmeti fyrir þarmaflóruna. 

Regluleg hreyfing, fara út í náttúruna, hugleiða og núvitund er allt jákvætt fyrir þarmaflóruna þar sem þetta þrennt minnkar streitu  sem vitað er að er skaðleg fyrir vinveittar bakteríur. (4)

Einnig má nefna að það styrkir þarmaflóru ungbarna að gefa þeim brjóst. 

 

Skaðlegt fyrir þarmaflóruna

Einföld kolvetni s.s. sælgæti, sykur, hvítt hveiti, kex, kökur, hvítt brauð, unnar matvörur þar sem skaðlegum efnum hefur verið bætt í vöruna s.s. msg, gerfisæta, litarefni og  bragðefni.  Einnig geta eiturefni s.s. skordýra og illgresiseitur sem finnst í ýmsum matvælum, snyrtivörum, vatni og víðar skaðað þarmaflóruna. Mögulega er það sködduð þarmaflóra sem ýtir undir þessa aukningu á mataróþoli sem hefur átt sér stað síðustu ár.(8)

Sýklalyf drepa ekki eingöngu vandræða sýklana heldur einnig vinveittar bakteríur og getur það tekið langan tíma að vinna aftur upp jafnvægi í þarmaflórunni eftir sýklalyfjakúra. Til að ná varanlegum breytingum getur þurft um eitt til tvö ár á réttu mataræði sem styður við þarmaflóruna. 

Með aldrinum framleiðum við minna af vinveittum bakteríum og um sextugt verður ör fækkun á þeim og er talið að eftir sextugt framleiði líkaminn 1000 sinnum minna af góðgerlum (vinveittum bakteríum) í þörmum sínum en í upphafi fullorðinsáranna.(5)

Fleira sem skaðar þarmaflóruna eru reykingar (tóbak), alkohól, getnaðarvarnarpillan, skortur á svefni og streita.(6) En þekkt er að langvarandi stress skaðar vinveittu bakteríurnar svo þær fjandsamlegu geta náð yfirhöndinni og haft skaðleg áhrif á heilsu. (9)

Að öllu framansögðu mæli ég því óhikað með reglulegri inntöku vandaðra góðgerla þar sem í hverjum belg er að finna fjölbreytt úrval gerla/baktería í miklu magni (nokkra milljarða)  

 

Heimildir

1) American Society For Microbiology. 15. maí 2018. ,,American Gut: an Open Platform for Citizen Science Microbiome Research." DOI: 10.1128/mSystems.00031-18
http://msystems.asm.org/content/3/3/e00031-18

2) Duvallet, Claire; Gibbons, Sean M.; Curry, Thomas; Irizarri, Rafael A.; Alm, Eric J. Desember 2017. Nature Communications. doi:10.1038/s41467-017-01973-8 https://www.nature.com/articles/s41467-017-01973-8

3) Chu, Will. September 2017. ,,Probiotic intervention may increase beneficial gut bacteria in cancer patients. Nutra Ingredients.com https://www.nutraingredients.com/Article/2017/09/22/Probiotic-intervention-may-increase-beneficial-gut-bacteria-in-cancer-patients

4) Flynn, Jennifer and Gilbert, Jack A. May 2017. ,,Reduce the risk of arthritis by improving the microbiome." Arthritis-Health. https://www.arthritis-health.com/types/general/connections-between-gut-microbiome-and-arthritis

5) BBC News. 7. ágúst 2006. ,,Elderly Should Take Probiotics." http://news.bbc.co.uk/2/hi/health/5253182.stm

6) Hamzelou, Jessica. 28. apríl 2016. ,,Your choice of chocolate and contraceptive affect your gut bugs." Daily News. https://www.newscientist.com/article/2086320-your-choice-of-chocolate-and-contraceptive-affect-your-gut-bugs/

7) Thomas, Charlotte L, Fernández‐Peãns, Pablo et. al. Janúar 2016. ,,The microbiome and atopic eczema: More than skin deep." Australasian Journal of Dermatology, January 2016
https://onlinelibrary.wiley.com/doi/epdf/10.1111/ajd.12435

8) Claus, Sandrine P. et al. 4. maí 2016. ,,The gut microbiota: a major player in the toxicity of environmental pollutants?" Nature Partner Journals.  https://www.nature.com/articles/npjbiofilms20163

9) Morea, Jamie. 18. janúar 2017. ,,The link between gut health and stress." Thrive Global. https://medium.com/thrive-global/the-link-between-gut-health-and-stress-682aafa355c7

10) Gorbach, Sherwood L. 1996. ,,Microbiology of the gastrointestinal tract." Medical Microbiology. 4th edition.https://www.ncbi.nlm.nih.gov/books/NBK7670/

11) Cytowic, Richard E. 17. janúar 2017. ,,The Pit In Your Stomach Is Actually Your Second Brain." Psychology Today. https://www.psychologytoday.com/intl/blog/the-fallible-mind/201701/the-pit-in-your-stomach-is-actually-your-second-brain