Ayurveda og mannfólkið

Ayurveda kennir að maðurinn er heill heimur í sjálfum sér - mikrokosmos. Hann er afsprengi utanaðkomandi kosmískra afla - makrokosmos. Tilvera mannsins er nátengd öflum þeim sem knýja og stýra alheiminum og er undir miklum áhrifum frá þeim. 
Ayurveda skoðar heilsu og veikindi í heildrænu ljósi og tekur tillit til þessara tengsla einstaklingsins við kosmísk öfl og  við alheimsvitundina.
Ayurveda lítur á sköpunarverkið sem tjáningu alheimsvitundarinnar þar sem orku er breytt í efni. Allt í heiminum er skapað úr fimm frumkröftum (mahabutas): Rými, Lofti, Eldi, Vatni og Jörð.  Þessir frumkraftar eru byggingarefni alheimsins, hvort sem það er maðurinn, jurtir, plánetur, bílar eða kettir.  
Hinir fimm frumkraftar renna síðan saman á mismunandi hátt og mynda dósjurnar (doshas) þrjár eða lífsorkutegundirnar Vata, Pitta og Kaffa sem stýra virkni líkamans. Allt gengur síðan út á að halda dósjunum þremur í jafnvægi í líkamanum til að halda okkur heilbrigðum. Þar sem allt í heiminum er með þessa fimm frumkrafta í sér í mismunandi hlutföllum, getum við valið hvaða krafta við viljum auka við eða draga úr í okkur sjálfum, með því að velja fæðu, krydd og jurtir til inntöku. 
 
 
 
Við getum verið við stjórnvölinn með því að stýra því hvaða bragðtegundir við setjum ofan í okkur. Ayurveda fræðin gera ráð fyrir sex bragðtegundum og eftir því hvaða bragðtegund er ríkjandi í fæðunni, hefur maturinn mismunandi áhrif á dósjurnar þrjár. Ef ég sem dæmi, borða almennt mikið af súrum, sterkum, gerjuðum og söltum mat er ég að auka mjög við eldinn sem er einn af frumkröftunum fimm.  Frumkrafturinn eldur er aðal uppistaðan í pitta dósjunni. Með mataræðinu væri ég þá að auka við pitta dósjuna fram úr hófi sem síðan gæti leitt til Pitta ójafnvægis og pitta tengdra veikinda eins og húðvandamála, lifrar- og blóðvandamála eða geðrænna þátta eins og pirrings og reiði.
Allur matur, drykkur og jurtir er þannig með ákveðnar bragðtegundir ríkjandi og er um sex bragðtegundir að ræða: Súrt, sætt, salt, biturt, sterkt og herpandi. Þannig er sætt bragð t.d. ríkjandi í hveiti, haframjöli og mjólk. Sætt bragð samanstendur af frumkröftunum vatn og jörð. Með því að borða mikið af hafragraut, hveiti og  mjólk erum við þannig að auka við frumkraftana vatn og jörð innra með okkur og þar með aukum við kaffa dósjuna þar sem hún er gerð úr sömu frumkröftum. 
Biturt bragð samanstendur aftur á móti af frumkröftunum rými og loft rétt eins og vata og þegar við borðum grænkál og brokkoli eða annað kál sem er með biturt bragð eykst vata orkan innra með okkur. Það sama gerist þegar við neytum kaffis, sem er einnig með bragðtegundina biturt ríkjandi.  Bitra bragðið í miklu magni espar vata orkuna fram úr hófi  og espuð vata er oft rót ýmissa taugatengdra vandamála eins og svefnvandamála og kvíða.
Vata er samsett úr rými og lofti en loftið er þó ríkjandi í henni. Pitta úr eldi og vatni með eldinn ríkjandi. Kaffa úr vatni og Jörð með vatnið ríkjandi.  Þessar dósjur finnast síðan í mismunandi hlutföllum í okkur sem ákvarðar meðfædda líkams- og hugargerð okkar eða svokallað prakriti. Prakriti má líkja við arfgerðina sem við fæðumst með og við höldum henni ævina á enda. Prakriti nær ekki eingöngu yfir líkamsstarfsemi og útlit, heldur einnig yfir hugann og tilfinningalíf og setur þannig mark sitt á karakterinn okkar.  
Líkams- og hugargerðirnar eru sjö og er hver og ein  með einkennandi útlit, líkamsstarfsemi, hugarstarfsemi og tilfinningalíf. Sumir eru einnar dósju fólk, sem þýðir að þá er ein dósjan ríkjandi og mun minna af hinum tveimur. Aðrir eru tvídósja fólk, sem þýðir að tvær dósjur eru ríkjandi og mun minna af einni.  Algengast er að fólk sé tvídósja: Vata-Pitta, Vata-Kaffa eða Pitta-Kaffa. Afar sjaldgæft er síðan þrídósja fólk, og er nánast eins og að rekast á einhyrning. Þá eru allar dósjurnar í svipuðum hlutföllum í manneskjunni.  Líkamsgerðirnar sjö eru: Vata, Pitta, Kaffa, Vata-Pitta, Vata-Kaffa, Pitta-Kaffa, Vata-Pitta-Kaffa.
Þessum líkamsgerðum hentar síðan mismunandi fæða og lífsstíll til að halda sér í jafnvægi og þar með sjúkdómalausum.