ABHYANGA - sjálfsnudd með olíu og ást

Abhyanga – sjálfsnudd með olíu og ást

Abhyanga er sjálfsnudd með olíu. Þetta er stórkostleg aðferð til að róa taugakerfið og næra alla vefi líkamans. Æskilegt er að gera abhyanga alla daga.
Abhyanga -sjálfsnudd með olíuEf ekki gefst tími til þess er hægt að miða við að gera abhyanga 2–4 sinnum í viku, einkum á veturna þegar þurrkurinn innra með okkur nær hámarki. Það er sama hvenær dagsins olían er borin á líkamann og velur hver og einn þann tíma sem hentar. Vönduð olía eins og sesamolía, möndluolía eða kókosolía er borin rólega á allan líkamann með léttum strokum. Nudda skal vel inn í hársvörðinn og undir iljarnar. Olían er látin sitja í 10-15 mínútur á meðan hún er að ganga inn í blóðrásina og alla leið inn í vefina sjö til að smyrja þar hverja frumu. Olíuna þarf að þvo af í heitri sturtu (ekki nota sápu) svo ekki myndist kapha-stíflur í líkamanum. Hitinn í sturtunni gerir það að verkum að olían gengur enn betur inn í húðina og blóðrásina.

Abhyanga er einnig kallað snehana sem þýðir ,,að næra með ást“, en sanskrít orðið sneha þýðir bæði olía og ást. Í þessari heilsusamlegu athöfn má því segja að við séum að nudda okkur upp úr ást.

Með reglulelegri ástundun abhyanga drögum við úr daglegu sliti og álagi á líkama og huga. Olían hefur verndandi áhrif á húðina og taugakerfið og athöfnin sjálf er eins og dagleg kærleiksrík hugleiðsla sem kyrrir hugann.  Það er tilvalið að setjast niður á þægilegan stað með stórt handklæði eða slopp utanum sig og hugleiða eða gera róandi öndunaræfingar, á meðan olían seytlar í gegnum húðina og inn í blóðrásina þaðan sem hún dreifist til allara vefja og fruma líkamans.

Hvaða olíu skal nota?

Sú olía sem hefði er fyrir að nota á Indlandi er sesamolía sem er mjög næringarrík og hefur hitandi áhrif. Á veturna á Íslandi er hún því tilvalin til að vinna gegn þurrki og kulda vata árstíðarinnar sem veturinn er. Einkum hentar hún vel fólki sem er með meðfædda vata líkamsgerð eða í vata ójafnvægi þar sem vata dósjan er orðin of mikil í líkama og huga. Sesamolían hentar einnig vel fólki sem komið er á þriðja og síðasta æviskeiðið, en þá eykst vata dósjan í líkama okkar og huga sem þýðir aukinn þurrkur og léttleiki og þá er einmitt gott að nota olíu sem mótvægi til að halda jafnvægi. 

Kókosolía hefur kælandi áhrif og getur því verið hentug á sumrin og hentar vel þeim sem eru með pitta líkamsgerð eða eru í pitta ójafnvægi. Pitta dósjan er heit líkamsgerð enda er hún mestmegnis gerð úr frumkraftinum eldur. 

Þeir sem eru með kapha líkamsgerð eða eru í kapha ójafnvægi þar sem kapha dósjan er orðin of mikil í líkama og huga, þurfa að nota léttari olíu eins og möndluolíu eða jojoba olíu eða einfaldlega þurrbursta sig og sleppa olíunni.

Í ayurveda eru jurtastyrktar olíur gjarnan notaðar til að efla áhrifin af abhyanga. Olían seytlar niður í vefi og frumur líkamans og jurtirnar sem í henni eru hafa því sértæk áhrif umfram grunnolíuna.  Sem dæmi má nefna Dhanwantaram olían sem er sesamolía sem hefur verið jurtastyrkt með aðferðum ayurveda með jurtum sem róa vata dósjuna sérstaklega og vinna gegn verkjum í liðum og taugum. Virkum efnum í olíunum og jurtunum er þannig dreift til vefja líkamans framhjá meltingarkerfi líkamans sem getur verið mjög gott til að minnka álag á lifur og önnur líffæri meltingarkerfisins.

Abhyanga er tilvalið sem góður daglegur vani í því sem kallast dynacharya í ayurvedafræðunum. Fólk kemur sér upp góðri daglegri rútínu til að stuðla að góðri heilsu og vellíðan eins og að nota tungusköfu á morgnana og gera jógaæfingar til að opna rásir líkamans, teygja á fascia bandvefnum og vekja líffærin.