Vestrænt heilbrigðiskerfi hefur sínar takmarkanir, þrátt fyrir að geta bjargað lífum með lyfjum og skurðaðgerðum. Almenningur vill í síauknum mæli hafa hönd í bagga með sína heilsu og forðast óæskilegar aukaverkanir sem oft fylgja vestrænum læknismeðferðum. Margskonar tískusveiflur í heilsugeiranum koma og fara og henta fólki misvel og eru ekki alltaf vel ígrundaðar. Ayurveda aftur á móti er engin tískusveifla, heldur byggir þetta heildstæða heilbrigðiskerfi á yfir 5000 ára reynslu og er einstaklingsmiðað. Það skiptir miklu máli í nálgun ayurveda á heilsu okkar, að taka þarf tillit til líkamsgerðar, prakriti, hvers og eins ef árangur á að nást. Það sem er meðal fyrir suma er eitur fyrir aðra. Með því að fylgja ayurvedískum lífsstíl er hægt að hjálpa fólki að halda heilsu, ná sér hraðar af veikindum, og vonandi lengja lífið þar að auki. Hægt er að nota ayurveda fræðin samhliða meðferð í almenna heilbrigðiskerfinu. Ef fólk er nú þegar á lyfjum eða í meðferð vegna sjúkdóms er hægt að samtvinna ayurveda við þá meðferð.
Undirstöðuatriðin í Ayurveda
Í ayurveda byggist kerfið á frumkröftunum fimm: Rými, Loft, Eldur, Vatn, Jörð. Þessir frumkraftar eru byggingarefnið í heiminum, hvort sem það er maðurinn, jurtir, plánetur, bílar eða kettir. Þessir frumkraftar eru í mismunandi hlutföllum í öllu. Spekingar fyrri árþúsunda gáfu þessum öflum þessi nöfn til að lýsa eðliseiginleikum þeirra. Þeir þurftu að gefa hlutunum nafn til að hægt væri að ræða saman og þróa fræðin rétt eins og í dag þegar við gefum hlutum nafn svo allir séu á sömu blaðsíðunni í umræðunni. T.d. gáfum við næringarinnihalda matarins nöfnin prótein, kolvetni og fita og köllum virkni líkamans ýmsum nöfnum eins og hormónakerfi, blóðrásarkerfi, ónæmiskerfi o.s.frv.
Þessir fimm frumkraftar sameinast síðan á mismunandi hátt og mynda dósjurnar eða lífsorkutegundirnar Vata, Pitta og Kaffa sem stýra virkni líkamans.
Vata er samsett úr Rými og Lofti. Pitta úr Eldi og Vatni. Kaffa úr Vatni og Jörð. Við höfum síðan þessar dósjur í mismunandi hlutföllum í okkur sem ákvarðar líkamsgerð okkar. Líkamsgerðirnar eru 7 í grunninn. Sumir eru einnar dósju fólk og eru þá langmest einhver ein dósja: Vata týpa, Pitta týpa eða Kaffa týpa. Algengast er að fólk sé tveggja dósju fólk: Vata-Pitta, Vata-Kaffa eða Pitta-Kaffa. Afar sjaldgæft er síðan þriggja dósju fólk, og hefur því verið lýst af sumum eins og að rekast á einhyrning. Þá eru allar dósjurnar í svipuðum hlutföllum í manneskjunni.
Þessum líkamsgerðum hentar síðan mismunandi fæða og lífsstíll til að halda sér í jafnvægi og þar með sjúkdómalausum.
Fyrst ayurveda getur gert svo margt fyrir svo marga, og hefur verið iðkað í 5000 ár,- hvers vegna er eru ekki fleiri að iðka ayurveda? Sannleikurinn er sá að fólk hefur tilhneygingu til að halla sér frekar að nútíma hugtökum og aðferðum, þar sem það telur að það sem er nýrra sé betra. Það er aftur á móti ekki alltaf svo eins og dæmin sanna.
Hvernig er ayurveda ólíkt öllum öðrum læknisvísindum?
Í fyrsta lagi viðurkennir ayurveda að hver einstaklingur hefur sína einstöku líkamsgerð og líkamsvirkni auk þess að hafa sína einstöku hugargerð. Þar af leiðandi, í stað þess að vinna út frá því að líkamsstarfsemi allra vinni á sama hátt, er ayurveda einstaklingsmiðað. Aldrei er hægt að segja að þessi eða hin jurtin eða fæðan virki á sama hátt fyrir alla, eða að ákveðnar æfingar eða lífsstíll virki á ákveðinn hátt og eins fyrir alla. Í öðru lagi, einskorðar ayurveda sig ekki við líkamann og lífeðlisfræði líkamans, heldur tekur til greina allar víddir einstaklingsins, þar með talið andann, tilfinningar, hugsun, atferli, líkama, fjölskyldu, samfélag, umhverfi, náttúru og kosmíska þætti eins og stöðu himintunglanna.