Kaffið og ofurkraftarnir

Það hefur lengi verið vitað að sumir þola kaffi illa og kaffisopi að kvöldi til þýðir svefnlítil nótt í framhaldinu. Þeir eru til sem þola ekki einu sinni einn lítinn morgunbolla, því þeir finna það strax á gæðum svefnsins. Aðrir þola kaffi vel og ég þekki einn sem segist búa yfir ofurkröftum og geta áhyggjulaus hellt í sig kaffi að kvöldi en samt sofið eins og slakur köttur á eftir. 
Ayurveda er með skýringu á þessu. Eins meðal er annars eitur. Skýringin felst í því að dósjurnar þrjár, - vata, pitta og kapha eru mis sterkar í okkur. Sumir hafa mikið af vata og pitta dósju í sér sem er þá þeirra arfgerð eða prakriti. Þessar týpur þola kaffi ver en kapha týpan, sem fæddist með hina hægu og þungu kapha orku ríkjandi í sínu prakriti. En það er ekki eingöngu prakriti sem stýrir því hvernig við þolum kaffi. Kapha týpan getur lent í ójafnvægi og vata eða pitta orkan rokið upp og orðið ríkjandi í líkams- og hugargerð þeirra. Þá er viðkomandi kominn í vata eða pitta vikriti. Vikriti þýðir ójafnvægi. Hvað sem því líður, - sá sem er með ríkjandi kapha dósju í sér, þolir kaffi mun betur en hinir. En hvers vegna skyldi það vera?
Kapha dósjan samanstendur af frumkröftunum vatn og jörð. Vata dósjan er gerð úr rými og lofti og pitta úr eldi og svolitlu af vatni. Ef við lítum á bragðtegundirnar sex og hver þeirra er ríkjandi í kaffisopanum er það biturt og súrt bragð og á síðari stigum meltingar er það herpandi bragð sem tekur við. Allar þessar bragðtegundir espa vata og pitta dósjurnar sérstaklega mikið því þær eru samsettar úr sömu frumkröftum og vata og pitta. 
Kaffi espar einnig upp einn eiginleikann sem bæði vata og pitta búa yfir sem er léttleiki. Kaffið hefur einnig eiginleikana þurrkandi og hitandi. Þurri eiginleikinn er slæmur fyrir hina þurru vata dósju og hitandi eiginleikinn er slæmur fyrir hina heitu pitta dósju. 
Allar þessar bragðtegundir og eiginleikar sem kaffi býr yfir espa þannig vata og pitta en hafa minna af skaðlegum áhrifum á kapha dósjuna. Kaffið örvar hina hægu og þungu kapha dósju sem hefur einmitt gott af svolítilli örvun og getur þannig verið gagnlegt í miklu hófi eins og einn morgunbolli. Aftur á móti eykur kaffi á léttleikann og hreyfanleikann í bæði vata og pitta sem getur skilað sér í kvíða og einbeitingarskorti. Áhrifin af þessum eiginleikum kaffis geta einnig ýtt undir léttan svefn eða að hugsanir komi í veg fyrir að fólk nái að sofna. Hreyfanleikinn og léttleikinn minnka ekki þó drukkið sé koffínlaust kaffi, en það er þó minna örvandi, hitandi og minna ávanabindandi. 
Við getum nýtt okkur ayurveda fræðin til að draga svolítið úr skaðlegum eiginleikum kaffis með því að bæta kardimommu kryddi út í kaffið. En kardimomman er einmitt mikið notuð í chaí teunum indversku og mikið notuð í kaffi í arabalöndunum. Kardimomman er kælandi og jarðtengjandi og minnkar loftið og eldinn í kaffinu. Einnig er hægt að vinna gegn þurrkandi áhrifum kaffisins sem tengjast hinu herpandi bragði, með því að bæta olíu út í kaffibollann, t.d. kókosolíu eða ghee. Fitan vinnur gegn þurrkinum og súru eðli kaffisins. Kaffið verður þar með mildara fyrir tauga- og hormónakerfið en fólk sem þjáist af kvíða eða svefnleysi ætti að halda sig frá kaffi og þar sem kaffi hefur mikil áhrif á pitta og þar með á hormónakerfið ættu konur á breytingaskeiði að sneiða hjá kaffinu þar sem það hefur mikil áhrif á hormónajafnvægi líkamans. Kaffið hefur einnig skaðlega áhrif á slímhúð meltingarvegs og ættu þeir sem eiga í meltingarvandræðum að sneiða hjá því. Þó kaffi hjálpi við hægðalosun, er hin  alltof mikla örvun sem kaffið hefur á ristilinn skaðleg til lengdar og aðrar hófsamari og sjálfbærari aðferðir hætta að virka eins og að drekka glas af heitu vatni á fastandi maga snemma á morgnana. 
Það ber að umgangast þennan öfluga drykk með varfærni og virðingu. Frumbyggjar Eþíópíu, þaðan sem kaffi er upprunnið nýttu þennan magnaða drykk aðeins til lækninga og í helgum tilgangi við merkisathafnir. Þannig var það einnig hjá aröbum sem höfðu nýtt kaffið  lengi áður en Evrópubúar kynntust því á 16. öld. Kannski Vesturlandabúar verði að taka sér tak og fara að líta á drykkinn eins og upphaflega var gert og drekka hann til hátíðabrigða, rétt eins og flestir gera með áfenga drykki eða sykraða gosdrykki.